Jóga Jörð
Flott sumarjóga með skemmtilegum þrautum og leikjum - vikunámskeið
Sumarjóga er árstíðarbundið jóga fyrir krakka frá 9 - 13 ára. Kennsla hefst þegar skólum líkur í byrjun sumars. Þetta eru vikunámskeið, kennt í 3.5 tíma hvern dag með jógakennslu helming tímans og leikjum og þrautum hinn helminginn. Í lok apríl er dagskráin til og má þá finna hvaða vikur eru í boði. Dagskráin er líka aðgengileg á sumarvef ÍTR.
Viðtökurnar við þessum námskeiðum hafa verið frábærar hjá börnum sem foreldrum. Jóga Jörð er aðili að frístundastyrk
Á námskeiðinu lærum við skemmtilega hluti, höfum gleði og gaman. Inni gerum við jóga, förum í leiki og sköpum. Útivist þegar veður er gott með þrautum og leikjum. Við kynnumst öðrum krökkum, vinnum saman og lærum að treysta á okkur sjálf og hvort annað. Við förum í þrautir í anda survivor. Við lærum jóga með öndun og slökun sem gefur okkur meira sjálfsöryggi þannig að við vitum betur hver við erum og hvað við viljum. Við verðum glaðari, einbeittari og skýrari. Flott fyrir skólann næsta vetur. Líkaminn verður sterkari, sveigjanlegri og líkamsstaðan falleg. Við höfum indverskan dag þar sem við lærum að klæðast sarí. Lærum að búa til pappírsbrot úr pening sem hægt er að gefa í afmælisgjöf og gerum margt fleira skemmtilegt.
Gert er ráð fyrir jógakennslu í 1.5 – 2 tíma á hverjum degi og þrautum, leikjum og sköpun í 1 – 1.5 tíma. Jóga, öndun og slökun eflir líkamsvitund, meðvitund um tilfinningar og hugsanir. Kenndar eru grunnstöður í jóga, sem styrkja líkamann, gera hann sveigjanlegan og rétta líkamsstöðuna. Kennd er fullkomin öndun og víxlöndun sem auka súrefnismettun í blóði, slaka á líkama og kyrra huga. Slökun er kennd sem gefur frið og eflir getu til að taka á móti áreiti með jafnaðargeði. Leikir og þrautir eru valdir með það að leiðarljósi að reyna á samvinnu, traust og að efla sjálfstraust og færni til að standa með sjálfum sér. Gleði og gaman fær að ríkja og við njótum lífsins hér og nú.