Jóga Jörð
Hvað er jóga?
Jóga miðar að því að gera okkur heilbrigð í líkama, huga og sál. Orðið jóga þýðir eining og er þá átt við einingu milli framangreindra þátta sem gerir það að verkum að við náum jafnvægi og stöðugleika og viðhöldum því. Með því að iðka jóga öðlumst við aukna meðvitund og stjórn á huga, tilfinningum og líkama. Við verðum umburðalyndari og öðlumst stillingu og hugarró.
Jóga er upprunið í fornum vedískum fræðum Indlands. Það byggir á árþúsunda gamalli siðfræði sem birtist í höfuðritum yoga Bhagavad Gita og Yoga sutra Patanjali. Þessi rit gefa okkur leiðbeiningar um hvernig jógamarkmiðum skuli náð. Um er að ræða innri ferðalag þar sem við leitumst við að finna kjarnann þar sem kyrrð og sætti ríkir. Þetta er ferðalag umbreytingar og leit að þekkingu á innri vitund burtu frá ytri efnisheiminum.