Jóga Jörð
Á vorin eru 4 – 6 vikna námskeið í jóga fyrir golfara og um miðja febrúar er dagskrá þeirra tilbúin. Vinsamlegast hafðu samband ef þú vilt vera á lista til að fá að vita hvenær námskeiðin hefjast. Þú getur gert það með því að fara í skráningu og láta vita í reitnum undir námskeið eða senda póst á jogajord@jogajord.is
Leiktu með hjartanu
Þeir sem kynnst hafa golfi vita að sálrænn þáttur golfsins er jafnmikilvægur og líkamlegi þáttur þess. Jóga sameinar þetta tvennt. Hefðbundin jógatími samanstendur af einbeitingu, öndun, líkamsstöðum og slökun. Leitast er við að vera í andartakinu með vakandi athygli á líkama, huga og tilfinningar. Með markvissri ástundun í jóga eflist líkamsvitund, einbeiting og meðvitund um hugsanir. Allt hugrænir þættir sem eru undirstaða árangurs og gleði í golfi.
Í golfjóga er klassískt jóga aðlagað að þörfum golfarans. Áhersla er á þær líkamsstöður sem gagnast á golfvellinum. Það eru æfingar sem vinda upp á hrygginn, mýkja og teygja axlir og mjaðmir, styrkja handleggi, hendur, bak og fætur og auka stöðuleika og jafnvægi líkamans. Einbeitingaræfingar eru gerðar og tengdar sjónsköpun á golfvellinum. Öndun er æfð m.a. með golfkylfu í höndunum. Það eru gerðar öndunaræfingar sem hægja á öndun sem leiðir til að hugurinn kyrrist og vöðvar líkamans slaka á. Kenndar eru upphitunaræfingar sem golfarar eru hvattir til að temja sér í upphafi golfleiks til að hita upp líkamann og gagnast þær vel sem forvörn gegn meiðslum. Einnig er farið í dýpri slakanir og nemendur þjálfaðir í að taka eftir og greina hugann og byggja upp jákvæðar hugsanir. Hver tími skiptist í þrjá hluta. Byrjað er á einbeitingu og öndun, þá farið í líkamsæfingar og loks farið í djúpa slökun.
Að afloknu námskeiði munu þátttakendur þekkja aðferðir sem ekki aðeins auka árangur og ánægju á golfvellinum heldur nýtist einnig í daglegu lífi. Þátttakendur hafa sérstaklega nefnt að öndunaræfingar hafi gagnast þeim afar vel.
Jóga fyrir golfara